Fréttaflutningur Stöðvar 2 um hreiðurrólur

Umfjöllun Stöðvar 2 um hættulegar hreiðurrólur

Umfjöllun um slys á leiksvæðum er þörf og góð en því miður gætti alvarlegra rangfærslna í umfjöllun Stöðvar 2 um hreiðurrólur í nýliðinni viku.
Rólan sem var sýnd í fréttinni föstudaginn 4. september er íslensk framleiðsluvara KRUMMA ehf. og er frábrugðin þeim rólum sem umrædd slys urðu í.
Sú róla sem olli alvarlega hryggbrotinu var hvorki seld né framleidd af KRUMMA ehf. Rólan er staðsett á lóð Hraunvallskóla og hefur tvö en ekki fjögur upphengi og þ.a.l. umtalsvert meiri höggþunga. Það einkennilega við fréttaflutninginn er að rólan sem þetta alvarlega slys varð í fær enga umfjöllun og hefur ekki verið notuð í mynd við fréttaflutninginn hvorki þann 4. né þann 5. september. Rólan við Hraunvallaskóla er frá Lappsett og tvívegis verið breytt á Íslandi fyrst í byrjun, seinna skiptið trúlega í kjölfar slyssins . Rólan og fallvörnin undir henni uppfylla ekki staðal um leiktæki og þar af leiðandi íslenska reglugerð um öryggi á leiksvæðum. Upphengjur rólunnar eru einnig of síðar sem eykur umtalsvert á höggþungann.
Á síðu Umhverfisstofnunar kemur fram að aðalskoðun leiksvæða á að framkvæma einu sinni á ári til að staðfesta öryggi tækja, undirstöður þeirra og umhverfi. Árið 2012 fengu 168 leiksvæði aðalskoðun á öllu landinu, þar af voru 43 leiksvæði á leik- og grunnskólum eða tæp 10% allra leik- og grunnskóla landsins. Þrátt fyrir að reglugerðin um öryggi leiktækja hafi komið út árið 2002 er enn verið að tilkosta miklu í ný leiksvæði sem uppfylla ekki reglugerðarákvæðin. Í góðri trú leitast sveitarfélögin við að kaupa vöru sem uppfyllir þessi ákvæði sem gerir það svo ekki, og þar spilar samsetning, uppsetning og undirlag einnig stóran sess.

Sú róla sem var í mynd þann 5. september er með tvö upphengi er einnig innflutt, framleidd af Proludic. Þegar horft var á fréttina þar sem rætt var við móðurina með róluna í bakgrunni sést að uppsetningin er ekki rétt, upphengjurnar eru of síðar.

Varðandi diskana sjálfa (hreiðrin) þá eru margir framleiðendur að þeim og mikill gæða- og verðmunur. Fróðlegt væri að fá nánari upplýsingar um slysin sem Herdís Storgaard vitnar í erlendis, hvaða diskar þetta voru, hvort þeir hafi verið vottaðir og af hverjum. Diskurinn er einn af afgerandi íhlutum rólunnar, en efnisval á öðrum íhlutum, frágangur og hæð skipta einnig máli. Hvernig var t.d. ástand á legubúnaði í rólunni sem olli banaslysinu, hversu há var rólan, eflaust hefur umrætt slys verið rannsakað vel og hægt að nálgast upplýsingarnar ef leitað er eftir því.

En það er alls ekki svo að það verði aldrei slys í vottuðum tækjum og fyrir um ári síðan varð fótbrot í vottaðri hreiðurrólu frá KRUMMA ehf. Fyrirtækið harmar mjög slysið og hóf rýnisvinnu á hönnuninni, enda kveður gæðastefna fyrirtækisins á um það, verði slys í leiktæki frá KRUMMA ehf, þrátt fyrir að það uppfylli reglugerð um öryggi leiktækja. Í kjölfarið voru gerðar úrbætur og niðurstaðan varð sú að nota léttari disk með minna þvermál og mýkri brún. Uppbygging grindar og sveiflubúnaðar er eins og áður en íhluturinn bæði minni, léttari og mýkri.
Einnig var hugað að betri takmörkun á hliðarsveiflu en talið var að hugsanlega hafi hliðarsveifla átt þátt í umræddu fótbroti.
Rólan í fréttinni þ. 4. september er ný, hún hefur fjögur upphengi. Fjögur upphengi takmarka sveiflu og um leið bæði höggþunga og halla í útsveiflu. Höggþunginn ræðst einnig af því hversu margir geta safnast í diskinn samtímis.

Öll slys ber að taka alvarlega, skoða, bæta úr hönnun ef hægt er, en annars taka umrædda vöru af markaði, sýna ábyrgð. Beinbrot eru alvarleg slys. Reykjavíkurborg skoðaði málið vel í kjölfar útboðs síðasta vor og ákvað að kaupa hreiðurrólur með fjórum upphengjum. Aðkoma sveitarfélaga er misjöfn, sum horfa meira til verðsins á meðan önnur sýna meiri fagmennsku í innkaupum. Eitt af því sem skiptir máli þegar horft er til öryggis leiksvæða er fallvörnin, hvaða fallvörn er notuð við viðkomandi tæki og eins ástand hennar og viðhald. Þetta er mjög vanmetinn þáttur.
KRUMMA ehf. er vottað bæði hjá TÜV-nord, Þýsklandi og DTI Danmörku. Auk þess
er undirritaður meðlimur í BULP, dönsku fagfélagi sem kemur að vinnu evrópsku staðlanefnadarinnar. Annar þáttur sem oft er einnig vanmetinn er uppsetning og viðhald. Til þess að bæta úr þessu hefur KRUMMA haldið reglulega námskeið í staðli um leiktæki sem lýkur með stuttu prófi. Námskeið sem þessi virka sem góð hvatning til þess að kynna sér staðalinn betur og þá um leið vera gagnrýnni.
Sveitarfélög hafa tekið vel í þetta og gjarnan sent starfsmenn sína.
Öll umræða um öryggi barna er af hinu góða en í þessu tilfelli hefði hún mátt vera faglegri.
Að lokum ábending til allra með hreiðurrólur. Athugið bilið undir lægsta punkt disksins mælt frá yfirborði undir disk og styttið í upphengjum ef bilið mælist styttra en 40cm. Með tímanum hefur þetta bil tilhneygingu til að styttast.