Orðahljóð – Lottó

KRUMMA hefur í samstarfi við Guðrúnu Sigursteinsdóttur hafið framleiðslu á nýju spili, Orðahljóð.

Orðahljóð-Lottó

Orðahljóð

Spilið er hægt að spila sem myndalottó og stafaspil. Myndalottó: Sá sem stjórnar myndalottóinu spyr þátttakendur „Hver er með gulan banana?“ Svarið á að vera: „Ég er með gulan banana“. Athugið að mikilvægt er að svara með heilli setningu. Smám saman fyllast spjöldin og sá sem er fyrstur að fylla sitt spjald fær broskall á mitt spilið.

Stafaspil: Sömu reglur gilda í stafaspilinu. Hægt er að nota nöfn stafanna til að kenna börnunum að þekkja þá en einnig hljóð þeirra. Dæmi: „Hver er með staf sem heitir emm?“ ,,Ég er með staf sem heitir emm“. „Hver er með staf sem hefur hljóðið m–?“ ,,Ég er með staf sem  segir m–“.

Um spilið

Orðahljóð er hlustunarspil sem þjálfar tæknilega hlið lestrar, umskráningu/umkóðun. Sem merkir einfaldlega að breyta hljóðum í bókstafi og stöfum í hljóð.

Leikurinn er kennslufræðilegur og ætlaður börnum frá 3ja til 4ra ára. Börnin hlusta eftir fyrsta hljóði í orði fyrir utan tvö orð hurð og uxi. Hvorki ð eða x standa fremst í orði í íslensku en eru samt hljóð og stafir sem börn þurfa að læra. Orðin hurð og uxi eru notuð í spilinu til að þjálfa þessi hljóð. Best er að byrja á að nota þær myndir til að geta síðan leikið leikinn, með fyrstu hljóðin, svo úrslit hans geti orðið tilviljunarkennd. Börnin þurfa því í upphafi leiks að hlusta eftir hljóði síðast í orði (hurð) og inn í miðju orðs (uxi).

Leikurinn er tilvalinn til að nota í leikskóla og fyrsta bekk grunnskóla, með börnum sem eru að læra íslensku sem annað mál og með börnum sem eru í áhættu um lestrarerfiðleika. Í leikskóla er hann leið til að þjálfa hljóðavitund (hljóðgreiningu og hljóðtengingu), bæði fyrir og eftir HLJÓM-2.

Spilareglur:

  • Heiti hluta/mynda eru skráð á hvert spjald bæði lítil og stór. Í upphafi leiks þarf stjórnandi að fara yfir öll hugtökin og láta börnin hafa eftir sér orðin. Síðan getur leikurinn hafist.
  • Stjórnandi spyr hver sé með mynd sem byrjar á hljóði orðsins sem hann vill að þau leiti eftir (með fyrrgreindum undantekningum). „Hver er með mynd sem byrjar á s—?“ Börnin reyna að átta sig á hvert þeirra sé með mynd sem byrjar á s-hljóði og barnið sem getur uppá því fær myndina til að setja á sitt spjald.
  • Broskerlingar/-karlar eru notuð þegar börnin finna fleiri orð sem byrja á sama upphafshljóði og stjórnandi biður þau að hlusta eftir. Á þann hátt vinna þau sér inn aukastig í leiknum.
  • Þegar börnin hafa náð tökum á myndaspilinu þá er einnig hægt að spila það með því að nota eingöngu stafina þ.e. þau fá stafinn sem þau eru að hlusta eftir til að leggja ofan á myndina.
  • Kennari þarf að stjórna leiknum meðan börnin eru að ná tökum á honum og mikilvægt að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningunum til að sem bestur árangur náist. Síðan geta börnin leikið leikinn sjálf.
  • Árangursríkt er að börnin fái tækifæri til að skrifa orðin og stafina á spjöldunum, sem þau fá í spilinu, í beinu framhaldi af því að spila spilið.

Spilið er hægt að nálgast í vefverslun okkar eða í verslun okkar að Gylfaflöt 7.