Öryggisstefna

Öryggisstefna

Hvað er öryggisstaðall?

Hvernig geta neytendur áttað sig á því hvað eru góð leiktæki með tilliti til öryggis? Í Evrópu er EN 1176 gildandi staðall um öryggi leiktækja og svæða. Staðallinn fjallar um hönnun, eftirlit og viðhald. Grunnur staðalsins eru slysaskráningar og aðrir áður gildandi eldri staðlar í Evrópu, hann er því ákveðin neytendavernd. Til þess að innleiða notkun staðalsins á Íslandi var í desember 2002 gefin út reglugerð Nr.942 en staðallinn var samþykktur 1999.
Staðallinn (EN 1176) breytti miklu fyrir okkur framleiðendur sem bjóðum vottaðar vörur. Það er ekki nóg að segja kaupendum að leiktæki uppfylli EN 1176, þau verða að vera vottuð frá viðurkenndri stofnun. Á Íslandi var engin slík stofnun til og því hefur Barnasmiðjan sent sína framleiðslu til erlendrar vottunarstofu. Staðallinn leggur mikla ábyrgð á herðar framleiðenda enda er sönnunarbyrðin þeirra en eftirlitsskyldan stjórnvalda.
CE MERKING ER EKKI ÖRYGGISSTAÐALL YFIR LEIKTÆKI
Eini öryggisstaðallinn yfir leiktæki er EN 1176, ekkert annað.

Fallvörn

Samkvæmt EN 1176 ber seljendum að upplýsa um skilgreinda fallhæð úr tækjum sem boðin eru. Auk þess ber að upplýsa um rýmisþörf eða öryggissvæði leiktækja, en það er autt svæði umhverfis tækin. Trúlega eru flest slys vegna einhvers konar falls, leiksvæði getur því aldrei talist gott nema uppfylltar séu kröfur um öryggissvæði og fallvarnir.
Faglegur verðsamanburður samanstendur af öllum kostnaðarþáttum, tækjum, flutningi á verkstað, endingu, uppsetningu og frágangi. Ef borin eru saman einstök tæki getur kostnaðurinn við fallvörnina verið nokkuð misjafn, dýrara tæki í innkaupum getur verið ódýrara uppsett.
Algengasta fallvörnin á íslenskum leiksvæðum er fínkorna möl sem hörpuð hefur verið í ákveðna kornastærð. Sem fallvörn er mölin mjög góð en hins vegar verður að gæta þess strax í upphafi að fylgja kröfum um efnisþykkt. Algeng efnisþykkt er 32 cm.

HIC-gildi

HIC er mælieining þess höggs, sem yfirborð veldur við fall á það. Mörkin eru dregin við töluna 1000. Tíminn sem það tekur að eyða högginu má heldur ekki vera skemmri en 3ms.
Við högg á höfði sem mælist jafnt eða minna en 1000 HIC eiga engir alvarlegir áverkar að koma fram á höfðinu, aðeins ytri áverkar sem flokka má sem skeinur. Við högg um 1200 HIC er hætta á blæðingu milli kúpu og heilahimnu og við högg um 1400 HIC er hætta á blæðingu milli heila og heilahimnu.
Þess vegna er alltaf byrjað á því að skilgreina fallhæðina sem dempa skal og yfirborðið valið í framhaldi þess. Sé fallhæðin t.d. 1,5m þarf að velja fallvörn sem er 1000 HIC eða minna.